Endurnýjun og gildistími ökuskírteinis

Að gefnu tilefni langar mig að vekja athygli ökumanna á að athuga gildistíma ökuskírteina sinna. Mikilvægt er fyrir þá sem hafa bílpróf að fylgjast með gildistíma ökuskírteinisins vegna þess að sá sem sækir um endurnýjun ökuskírteinis þegar meira en tvö ár eru liðin frá því að gildistími fullnaðarskírteinis rann út skal þreyta próf í aksturshæfni. Sérstök ástæða er til að benda þeim sem hafa aukin ökuréttindi að endurnýja ökuréttindi sín á réttum tíma. Hægt er að endurnýja meiraprófið með tvennum hætti, þ.e. með og án réttinda til aksturs í atvinnuskyni. Bílstjórar sem nota ekki meiraprófið í atvinnuskyni geta skilað inn læknisvottorði og fullnægi umsækjandi skilyrðum getur sýslumaður endurnýjað ökuskírteini. Bílstjórar í D1- og D-flokk til farþegaflutninga í atvinnuskyni og C1- og C-flokk til vöruflutninga í atvinnuskyni skulu leggja fram læknisvottorð og hafa lokið endurmenntun. Um er að ræða fimm námskeið á fimm árum sem þarf að ljúka fyrir endurnýjun ökuskírteinis. Margir taka eitt námskeið á ári, dreifa þeim þannig á fimm ára tímabil og er það ákjósanlegast.

Einnig er mikilvægt að lögreglan og sérstakir umferðareftirlitsmenn lögreglu sinni eftirliti með ökuskírteinum ökumanna og gangi úr skugga um að ökuskírteini séu í lagi.

Lesandi góður, ekki gleyma að endurnýja, kíktu á ökuskírteinið núna.

 

ökuland

Sendu okkur skilaboð